Við erum hér!

Afsakið fjarveruna. Hér hefur eitt og annað verið í gangi bakvið tjöldin, hvort sem það er á varðandi Menningarfélagið, stjórnarmeðlimi sjálfa eða annað. Vinnan í kringum Menningarfélagið er jú unnin í sjálfboðavinnu og Covid setti smá strik í reikninginn.

Hvað um það. Hæ!

Fréttir af starfseminni
Það hefur verið eilítil lognmolla í kringum starfsemina síðustu mánuði en húsnæðið hefur þó verið nýtt af og til. Nýting húsnæðisins hefur einna helst verið í tengslum við tónlist; til kóræfinga, hljómsveitaræfinga, eftirvinnu sem snýr að upptökum osfrv.

Á árinu var félaginu veittur styrkur frá Húnaþingi vestra vegna ákveðinna rekstrarþátta sem snúa að húsnæðinu, stofn- og rekstrarstyrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og styrk frá sama sjóði vegna Söngvarakeppnis Húnaþings vestra 2020. Til stóð að söngvarakeppni sú yrði haldin í júní s.l., en vegna Covid varð ekkert af því. Það er enn óráðið hvort næst að halda keppnina á árinu eða ekki.

Eldur í Húnaþingi hefur fengið aðstöðu í húsnæðinu fyrir vinnu stjórnar. Með því vill menningarfélagið styðja við þessa metnaðarfullu hátíð sem er samfélaginu hér svo mikilvæg.

Stefnt er að því að halda aðalfund félagsins á næstu vikum og gera má ráð fyrir stjórnarbreytingum í kjölfarið.

Menningar- og listviðburðir
Ýmsir viðburðir hafa átt sér stað síðustu mánuði, hvort sem þeir hafa verið hér í heimahéraði eða „okkar fólk“ að gera það gott annarsstaðar. Sem dæmi má nefna að hljómsveitin Brek hefur verið með fjölmarga tónleika og útgáfur laga, hljómsveitin Slagarasveitin hefur verið að gefa út lög, Guðmundur Helgason hefur gefið út lag, Leikhópurinn Lotta var á Hvammstanga í gær, KK hélt tónleika á Hvammstanga í gær, blúsbandið GG blús hélt tónleika á Hvammstanga í síðustu viku, og svo mætti lengi telja.

Við ætlum að reyna að vera dugleg við að koma menningar- og listviðburðum á framfæri hér á vefnum, í þeim tilvikum þar sem þeir varða fólk og viðburði á okkar svæði og/eða „brottflutta og tengda“ sem eru að gera það gott utan héraðs. Við tökum góðfúslega og þakklát á móti ábendingum um slíkt. Ábendingar má senda á stjorn@menhunvest.is eða í skilaboðum á Facebook.